Seðlabankinn hefur birt greiðslujöfnuð og erlenda stöðu þjóðarbúsins á fjórða ársfjórðungi 2015. Fram kemur að nauðasamningar þrotabúa innlánsstofnana í slitameðferð voru endanlega staðfestir á ársfjórðungnum. Áhrif þessa samninga á erlenda stöðu þjóðarbúsins voru mikil. Áhrif á viðskiptajöfnuð munu þó ekki koma að fullu fram fyrr en á  fyrsta ársfjórðungi árið 2016 þar sem nauðasamningarnir voru ekki staðfestir fyrr en undir lok ársfjórðungsins.

Í desember síðastliðnum lágu fyrir bindandi nauðasamningar við kröfuhafa slitabúanna en samningarnir kveða á um greiðslur til kröfuhafa í formi reiðufjár en einnig verða gefin út skulda- og hlutabréf í félögunum sem afhent verða kröfuhöfunum. Samtals nema greiðslur til kröfuhafa 1.904 milljörðum króna en afskriftir skulda nema 7.134 milljörðum króna. Aðeins hluti greiðslnanna, eða sem nemur um 462 milljörðum króna, kom til framkvæmda á fjórða ársfjórðungi. Eftir standa því 1.442 milljarðar króna sem síðar verða greiddar til kröfuhafa í formi reiðufjár eða með afhendingu skulda- og hlutabréfa félaganna.

Nettóskuldir lækka um 7.196 milljarða króna

Erlendar eignir þjóðarbúsins námu 4.785 milljörðum í lok fjórða ársfjórðungs en skuldir námu 5.101 milljörðum króna. Hrein staða var því neikvæð um 316 milljarða króna, eða sem nemur 14,4% af vergri landsframleiðslu. Nettóskuldir lækka um 7.196 milljarða króna, eða sem nemur 328,6% af af vergri landsframleiðslu.

Gengis- og verðbreytingar höfðu jákvæð áhrif á erlenda stöðu þjóðarbúsins sem nam 7.163 ma.kr. á ársfjórðungnum en þar af voru 7.134 ma.kr. vegna afskrifta skulda innlánsstofnanna í slitameðferð. Gengis- og verð- breytingar, aðrar en vegna afskrift skulda, námu 29 ma.kr. Munar þar mestu um hækkun á erlendri hlutabréfaeign en verð erlendra hlutabréfa hækkaði um 5% að meðaltali á ársfjórðungnum.