Skiptum í þrotabú Íslenskrar afþreyingar hf, forvera 365 miðla, sem tekið var til gjaldþrotaskipta í júní 2009, er lokið og fengust 467 milljónir upp í tæplega 4,2 milljarða króna kröfur.

Stærstu kröfuhafar Íslenskrar afþreyingar voru Landsbankinn og íslenskir lífeyrissjóðir samkvæmt Friðjóni Erni Friðjónssyni, skiptastjóra félagsins.

Forgangskröfur í þrotabúið námu rúmlega fjórum milljónum og voru greiddar upp að fullu en almennar kröfur námu 4.156 milljónum og fengust 11,14 prósent upp í almennar kröfur. Kröfuhafar þurfa því að afskrifa um 88,8 prósent af kröfum sínum gagnvart félaginu.

Unnið er að því, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, að tveir stjórnarmenn Íslenskrar afþreyingar, þeir Magnús Ármann og Þorstein M. Jónsson, greiði stærsta kröfuhafanum, Landsvaka, dótturfélagi Landsbankans, sem telur sig hlunnfarinn vegna gjaldþrots Íslenskrar afþreyingar skaðabætur. Allt stefnir hins vegar í málaferli gegn öðrum stjórnarmönnum, þeim Pálma Haraldssyni og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, í haust.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.