Í umfjöllun um stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands í gær á vefsíðu Financial Times eru leiddar líkur að því að íslenska krónan verði sett á flot innan tveggja vikna.

Þar segir að líklega verði beðið samþykkis stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á 2 milljarða dala láninu, sem íslensk yfirvöld hafa sóst eftir frá sjóðnum, áður en sú ákvörðun verði tekin, en það muni þó líklega gerast á næstu tveimur vikum.

Stýrivaxtahækkunin sé því tilraun til að styrkja krónuna og til þess gerð að undirbúa hana fyrir flot á næstu vikum . Í greininni segir að litið sé á flot krónunnar sem nauðsynlegt skref í þá átt að skapa aftur traust á íslenskt hagkerfi.

Þegar Viðskiptablaðið leitaði staðfestingar Seðlabanka bárust þau svör að einungis væri um vangaveltur að ræða hjá Financial Times og vildu talsmenn bankans ekkert tjá sig um hvenær þess væri vænta að eðlilegt gjaldeyrisviðskipti yrðu tekin upp að nýju og krónan sett á flot.

Eins og staðan er gjaldeyrir skammtaður á Íslandi og hann boðinn upp af Seðlabankanum dag hvern og raðast beiðnir um gjaldeyri í forgangsröð þannig að sumir umsækjendur þurfa frá að hverfa.