„Gengisþróun krónunnar kemur ekki óvart í ljósi þess með hvaða hætti hún var sett á flot“, segir Bjarni Már Gylfason hagfræðingur Samtaka iðnaðarins.

„Það má eiginlega segja að krónan hafi verið sett á flot í flotgalla og komið í veg fyrir að hún gæti sokkið. Augljóst var að gengi krónunnar var orðið mjög veikt og raungengi krónunnar lægra en gæti staðist til lengri tíma litið. Vöruskiptajöfnuðurinn gaf skýrt til kynna að krónan gæti ekki annað en styrkst. En það má alveg velta fyrir sér hversu raunhæft þetta gengi sé. Þó svo að forsendur séu fyrir styrkingu krónunnar út frá vöruskiptum er ennþá ljóst að innan hagkerfisins er fé sem vill komast burt. Því er enn ósvarað með hvaða hætti á að losa það fé sem er hér í gíslingu.

Iðnaðurinn á mikið undir því að krónan rétti sig af til skamms tíma en til lengri tíma litið er alveg ljóst að við þurfum að komast í annað peningaumhverfi. En við verðum að fara réttar leiðir í þeim efnum. Sú leið felst í að ganga í ESB og taka upp evru með réttum hætti sem fullgildur aðila að ESB og með stuðningi þess og því gangverki sem um evruna og myntbandalagið gilda. Slík stefnumótun mun t.a.m  auðvelda okkur að leysa erlenda aðila úr þeirri gíslingu sem gjaldeyrishöftin eru“, segir Bjarni Már Gylfason.