*

laugardagur, 12. júní 2021
Innlent 21. maí 2018 11:02

Krónan fíllinn í herberginu

„Sumir geta nýtt sér aðstæður og gera það en aðrir – allur almenningur – honum blæðir fyrir þetta,“ segir Þórður Magnússon.

Gunnar Dofri Ólafsson
Haraldur Guðjónsson

Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyrir Invest, hefur um áratugaskeið verið þeirrar skoðunar að íslenska krónan sé Íslandi fjötur um fót. Þórður var viðmælandi Viðskiptablaðsins í liðinni viku og lesa má meira af því viðtali hér en viðtalið í heild birtist í Viðskiptablaðinu.

„Ég hef talað um að það sé ótrúlegt að komast í gegnum það á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins, sem var að mörgu leyti mjög góður og vel upp settur, og fara yfir 100 ára sögu atvinnulífs á Íslandi án þess að minnast einu orði á íslensku krónuna. Það er alveg stórmerkilegt og eiginlega alveg ótrúlegt. Þetta er svona líka í Færeyjum, það má ekki minnast á sjálfstæðismálið. Þetta er fíllinn í herberginu og þvílík þöggun sem hefur átt sér stað í íslensku samfélagi í kringum gjaldmiðlamálin. Það breytist ekkert heldur endurtekur þetta sig bara stöðugt. Síðan er þessi umræða um ferðaþjónustuna og að þetta sé að verða of dýrt. Þetta er bara enn annar hringurinn. Það sem gerist er að þau fyrirtæki sem hafa þekkingu og getu til að flytja sína framleiðslu annað gera það. Fyrirtæki sem starfa á alþjóðlegum markaði þrífast ekki í höftum. Þau þurfa opið hagkerfi og viðskiptafrelsi.“

Þórður segir þessa stöðu vera ósanngjarna, sérstaklega fyrir allan almenning. „Sumir geta nýtt sér aðstæður og gera það en aðrir – allur almenningur – honum blæðir fyrir þetta.“

Erum við að fara enn annan hring núna?

„Jájájá. En þetta þarf ekki að vera svona en er svona því krónan er minnsta sjálfstæða mynteining í heimi og það er ekki hægt að reka svona lítið myntkerfi með frjálsu flæði fjármagns. Þess vegna eru núna þessar aðgangshindranir – innflæðishöftin – sem einhverjum finnast vera kolómöguleg og segja: „This time it will be different“, núna verður þetta öðruvísi, en þetta verður ekkert öðruvísi. Það er ekki hægt að reka myntkerfið án hafta. Það hefur verið sýnt fram á.“

Bölvanlegt fyrir allan almenning

Það hlýtur að vera krefjandi að athafna sig sem fjárfestir í svona umhverfi.

„Það sem er fyrst og fremst ósanngjarnt í þessari stöðu er að þótt þetta sé bölvanlegt fyrir alla þá er þetta ekki eins bölvanlegt fyrir þá sem kunna á þetta og og geta takmarkað vandann sem af þessu leiðir eins mikið og þeim er unnt. En almenningur er ekki í stöðu til þess.“ Gjaldmiðlaskipti væru því að mati Þórðar fyrst og fremst almenningi til hagsbóta. „Gegnum tíðina hefur verið gengið frá kjarasamningum og jafnvel á sama tíma nánast samið um það hve mikið æti að fella gengið. Þá tekurðu bara úr einum vasanum og setur í hinn. Það hefur að vísu breyst með auknu sjálfstæði seðlabanka en það breytir því ekki að krónan fellur ef ekki er innistæða fyrir því sem gert er.“

Á þessum nótum, hvernig blasa kjaramálin við þér?

„Í svona óstöðugu umhverfi er miklu meiri hætta en væri í stöðugu umhverfi. Þá væru meiri líkur á að það myndist sameiginlegur skilningur um það hvað er samfélaginu fyrir bestu. Það er ekki hægt að breyta þessum verðviðmiðum nema um kannski 1-3% á ári og sígandi lukka er best. Það lá til grundvallar þegar var samið í Þjóðarsáttinni og því sem fylgdi og sett upp þannig að verkalýðshreyfingin sá það og skildi að það væri einskis hagur að verðbólgan færi af stað því það bíti í alla.“ Þórður segir að þrátt fyrir allt séu tækifærin á Íslandi óendanleg.

„Staða okkar og tengsl við markaðina eru með allt öðrum hætti en áður var. Það er ótrúlegt að í samfélagi sem telur ekki nema 350.000 manns að það sé flogið til tæplega 90 áfangastaða yfir sumarið og um 60 síðasta vetur. Þetta skapar geysilega möguleika til að koma vöru á markað með reglubundnum hætti. Tækifærin fyrir svona lítið samfélag eru óendanleg og miklu meiri en við gætum vænst á grundvelli okkar stöðu. En til að nýta tækifærin væri önnur skipan mála mun heppilegri en sú sem við búum við. Þetta leiðir alltaf til ósættis því samfélagið sem við búum við í dag er ekki réttlátt fyrir þá sök að tekjudreifing er sú besta sem þekkist í heiminum en eignadreifing er mjög misjöfn. Ástæða þess er að með reglubundnu millibili hafa orðið skellir í íslensku samfélagi með hrikalegum eignatilfærslum til óþurftar fyrir allan almenning í landinu.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.