Raungengi íslensku krónunnar var 80,5 stig í nóvembermánuði síðastliðnum og hækkaði um 0,6% á milli mánaða. Gengið var tæplega 91 stig í nóvember á síðasta ári og hefur vísitala raungengis á mælikvarða hlutfallslegs verðlags því lækkað um 11,4% milli ára. Frá desember á síðasta ári hefur raungengið lækkað um tólf prósent. Á þriðja ársfjórðungi 2020 nam vísitala raungengis 80,8 stigum sem er 1,3% lægra en á öðrum ársfjórðungi 2020.

Það sem af er ári hafa mestar breytingar á raungengi krónunnar á milli mánaða verið í mars og apríl. Raungengið lækkaði um fimm prósent milli febrúar og mars og um 5,2% á milli mars og apríl. Í apríl nam gengið 80,6 stigum og er því nær óbreytt frá þeim tíma. Raungengi krónunnar hefur ekki verið jafn lágt í um fimm ár.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, bendir á að nafngengi krónunnar sé í það veikasta frá fyrri hluta árs 2015. Raungengi krónunnar leitar í sama far nema lækkunin verður ekki jafn skörp sökum þess að verðlag hefur hækkað talsvert hraðar hér á landi en erlendis. Jón segir að verðlagsþátturinn vegi til um það bil tveggja prósenta hækkunar á raungenginu á milli ára, þar sem verðbólga hérlendis mælist nú 3,5% en í viðskiptalöndum Íslands mælist hún innan við 1,5%.

Nafngengið styrkst um 5% í desember

Nafngengi krónunnar styrktist talsvert í nóvembermánuði og hefur styrkingin haldið áfram það sem af er desember. Á síðustu tíu dögum hefur nafngengi íslensku krónunnar styrkst um ríflega fimm prósent gagnvart breska pundinu, um tæplega fimm prósent gagnvart Bandaríkjadollara og um 3,8% gagnvart evrunni.

Jón tekur fram að sú styrking sem á sér stað á nafngengi krónunnar í desember muni koma fram í raungenginu í næstu mælingum. Hann væntir þess að „innan tíðar“ verði raungengi krónunnar komið á sambærilegar slóðir og það var áður en heimsfaraldurinn skall á. Með auknum fjölda ferðamanna á næsta ári styrkist nafngengi krónunnar enn fremur og sömuleiðis hafi verðlagsþróun verið brattari hérlendis en annars staðar.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .