Framleiðsluverð einnar krónu myntar á Íslandi er um 3,6 krónur. Þetta kemur fram í Fjármálainnviðum Seðlabankans sem birtir voru í gær en þetta er í annað skiptið sem Seðlabankinn birtir ritið.

Þar kemur fram að árlegt myntsláttutap Seðlabankans vegna krónumyntarinnar er um tíu milljónir króna. Í dag fer meginþorri allra viðskipta á Ísland fram með öðrum greiðslumiðlum en reiðufé en stærstur hluti þeirrar krónumyntar sem fer í umferð frá bönkunum fer til matvöruverslana.

Seðlabankinn áætlar að árlegur kostnaður vegna notkunar reiðufjár í greiðslumiðlun á Íslandi sé um 2 ma.kr. Hlutur Seðlabankans væri um 0,2 til 0,3 ma.kr. Þá bera viðskiptabankar mestan hluta kostnaðarins, seljendur vöru og þjónustu einhvern hluta en einstaklingar lítinn hluta.