Gengi krónunnar styrktist um milli 1 og 2% gagnvart helstu viðskiptamyntum í dag, og gengisvísitalan um 1,57%.

Bandaríkjadalur kostar nú 119,2 krónur og lækkaði í verði um 2%, evran er á 134 krónur og lækkaði um 1,5%, og sterlingspundið er á 157 krónur og lækkaði um 1,3%.

Gengið hefur verið töluvert sveiflukennt síðustu vikur. Síðastliðna viku hefur það styrkst um 2,2%, en sé miðað við 2 vikur hefur það veikst um 1,2%. Sé miðað við síðastliðinn mánuð hefur það styrkst um 1,2%, en frá áramótum um 2%.

Velta á aðalmarkaði Kauphallarinnar nam 11 milljörðum króna í dag og úrvalsvísitalan hækkaði um 0,18%. Talsverðar hreyfingar voru á gangvirði skráðra hlutabréfa, en mest hækkuðu bréf Icelandair, um 8,24% í 322 milljóna króna viðskiptum.

Á eftir flugfélaginu komu bréf Reita með 3,19% hækkun í 430 milljóna viðskiptum, og fast á hæla þeirra bréf Regins með 3,18% hækkun í 202 milljónum.

Arion banki stóð undir vel yfir helmingi allrar veltu dagsins með 6,8 milljarða króna heildarviðskipti sem skiluðu 7,17% lækkun bréfa hans. Stærsti hluthafi bankans, Kaupþing, gekk frá sölu á 10% hlut fyrir samtals 14 milljarða króna í morgun, en þar af voru um 6 milljarða króna viðskipti í Kauphöll Íslands, en afgangurinn í Svíþjóð. Viðskiptin áttu sér stað á genginu 70 krónur á hlut, tæplega 9% lægra gengi en dagslokagengi gærdagsins.

Næst kom Marel með veltu upp á tæpan miljarð og 1,98% lækkun, og þar á eftir Sjóvá með 2,02% hækkun í 621 milljóna króna viðskiptum.