Gengi krónunnar hefur hækkað um 0,5% gagnvart evru í vikunni. Greining Íslandsbanka segir hækkunina síðustu daga hefðbundna mánaðarstyrkingu þar sem útflutningsfyrirtæki skipti yfir í krónur á þessum tímapunkti hluta gjaldeyristekna sinna til að greiða innlendan kostnað á borð við laun.

Greiningardeildin segir í Morgunkorni sínu í dag gengi krónunnar hafa að jafnaði verið svipað í október í ár og í sama mánuði í fyrra.

Í Morgunkorninu segir að nokkuð ólík þróun hafi verið frá í byrjun september á gengi krónu gagnvart evru annars vegar og dollaranum hins vegar. Á meðan gengi krónunnar rétt svo hélt í horfinu gagnvart dollar gaf krónan talsvert eftir gagnvart evrunni eða upp á 3,1% samanborið við 0,6% gagnvart dollar.

Ástæðan er annars vegar vegna þess að evran styrktist nokkuð gagnvart dollara á tímabilinu og tengdist það vandræðagangi í bandaríska þinginu vegna þaks á skuldir ríkissjóðs, lakari hagtölum frá Bandaríkjunum en búist hafði verið við og að Seðlabanki Bandaríkjanna brást við vandræðaganginum og lakari hagtölum með því að segja að það væri lengra í að hann tæki í taumana í peningamálum en áður var talið. Þá hafði krónan lækkað gagnvart vegnu meðaltali mynta helstu viðskiptalanda og má rekja að einhverju marki til árstíðarsveiflu í gjaldeyrisstraumum vegna ferðamanna.