Krónan hefur það sem af er degi veikst um 1,72% og stendur gengisvísitalan í 129,4 stigum þegar þetta er ritað. Gengi krónunnar hefur nú samtals lækkað um 2,45% á síðustu tveimur viðskiptadögum.

Veikingin hefur orðið þvert á krónubréfaútgáfu fyrir samtals 4,5 milljarð á sama tímabili en krónubréfaútgáfa verður vanalega til styrkingar krónunnar. Í gær gaf Evrópski fjárfestingabankinn út krónubréf fyrir þrjá milljarða og þá bættist  írski bankinn Depfa í hópinn eftir lokun markaða í gær og gaf út krónubréf fyrir 1,5 milljarð króna.

Engu að síður hefur krónan lækkað sem að mati sérfræðinga má rekja til þeirrar neikvæðu umræðu sem fer nú fram um krónuna. Stjórnmálamenn tala niður krónuna í sambandi við umræðu um hátt matarverð á Íslandi og bætast þannig í hóp viðskiptamanna sem hafa í auknum mæli sagt krónuna óhagkvæma og vilja jafnvel freista þess að fá heimildir til að gera upp ársreikninga og skrá hlutafé sitt í evrum.

Í orðsins fyllstu merkingu er því verið að tala krónuna niður og markaðir bregðast við því.

Sérfræðingar benda jafnframt á að krónan sé afar viðkvæm um þessar mundir eins og þessi viðbrögð sína og því líklegt til að halda áfram að sveiflast nokkuð líkt og raunin hefur verið það sem af er ári.