Krónan veiktist um tæp 3% í dag og hefur vísitala hennar ekki verið lægri á árinu. Ljóst er að lítil velta er á markaði en Seðlabankinn heldur sig til hlés. Tölur frá bankanum sýna að inngrip hans námu aðeins 200 milljónum króna í mars en voru 1500 milljónir króna í febrúar. Þá hefur verið orðrómur um að innflutningur hafi verið að aukast það sem af er apríl.

Vaxtagreiðslur í mars jafngilda rúmlega tveggja mánaða veltu á millibankamarkaði með krónur en velta á gjaldeyrismarkaði hefur verið um 11,5 milljarðar frá áramótum að því er segir í nýrri skýrslu frá IFS ráðgjöf. Spá þeirra fyrir fyrsta ársfjórðung hljóðaði  upp á hæga styrkingu og að meðalgengi vísitölunnar yrði 196 stig á fyrsta ársfjórðungi. Meðalgengi vísitölunnar var 199 stig á fyrrgreindum ársfjórðungi.