Gengi krónunnar hefur fallið um 17% gagnvart evru á þessu ári eftir að hafa veikst um 0,34% í dag. Ein evra kostar nú tæplega 159 krónur. Krónan hefur ekki verið veikari gagnvart evru frá því í kringum áramótin 2013/2014. Gengi krónunnar fór lægst í 110 krónur gagnvart evru sumarið 2017.

Þá hefur gengi krónunnar gagnvart dollar veikst um 21,3% á árinu og kostar hann nú um 146 krónur en gengið fór undir 100 krónur á árunum 2017 og 2018.

Krónan hefur veikst um nærri 14% gagnvart pundinu á árinu. Eitt pund kostar 181 krónu og hefur krónan ekki verið veikari gagnvart pundinu frá því fyrir Brexit kosningarnar árið 2016. Á tímabili fór gengi pundsins undir 130 krónur árið 2017.