Gengi íslensku krónunnar hefur styrkst um nærri 6% frá 11. janúar og má gera ráð fyrir því að stórfelld krónubréfaútgáfa hafi að mestu leyti stuðlað að styrkingunni, segir greiningardeild Glitnis.

Glitnir bendir einnig á að gengishækkunina megi að einhverju leyti rekja til viðsnúnings í umræðunni um hvort einhverjir viðskiptabankanna væru um það bil að færa eigið fé sitt yfir í evrur.

Marktækt samband er milli krónubréfa og gengis, segir Glitnir. Það sem af er ári hafa erlendir aðilar gefið út 61,5 milljarða króna í krónubréfum, og þar af fimm milljarða króna í þessari viku.

Aldrei hefur verið gefið út meira magn krónubréfa í einum mánuði frá því útgáfa hófst haustið 2005. Alls eru nú útistandandi rúmlega 320 milljarða króna af krónubréfum.

Glitnir telur kjör þeirra bréfa sem gefin hafa verið út undanfarnar vikur allgóð samanborið við kjör íslenskra ríkisbréfa. Í kjölfar gengislækkunar krónunnar á síðasta ári hefur verðlagning hennar verið með eðlilegri hætti og er talið að þeir fjárfestar er kaupa krónubréf nú lendi síður í því að gengistap vegi þyngra en ávöxtun bréfanna.