Greiningardeild bandaríska bankans Merill Lynch gaf í síðustu viku út nýja skýrslu um íslensku bankana. Í skýrslunni segir að undanfarnar vikur hafi orðið skýr viðsnúningur hvað varðar viðhorf fjárfesta til íslensku bankanna, sem á meðal annars rætur að rekja til þess að endurfjármögnun bankanna fyrir næsta ár sé að fullu lokið. Þá segir í skýrslunni að fjárfestar séu nú að fá lystina á áhættu á ný, efir daufa sumarmánuði, en lækkandi álag á skuldatryggingum bankanna endurspeglar þessa þróun. Þ

á mælir Merill Lynch með að fjárfestar kaupi skuldabréf bankanna, sem falla á gjalddaga fyrir lok næsta árs en undirvogar skuldatryggingar bankanna til lengri tíma. Í skýrslunni eru framtíðarhorfur bankanna, krosseignarhald og staða Straums-Burðaráss gerð að sérstöku umfjöllunarefni.

Þrátt fyrir að viðurkenna að vindáttin á alþjóðlegum mörkuðum sé íslenskum bönkum hagstæðari nú en fyrr á þessu ári þá taka sérfræðingar Merill Lynch skýrt fram að ennþá séu til staðar áhættu þættir sem fjárfestar ættu að hafa í huga. Þar er sérstaklega bent á að enn hafa ekki orðið nægjanlegar breytinga á krosseignahaldi í íslensku viðskiptalífi, tekjustofn bankanna er enn of háður sveiflukenndri innkomu, eignamarkaður á Íslandi er viðkvæmur fyrir breytingum, hagkerfið er í heildina litið, í töluverðu ójafnvægi, framtíð Straums-Burðaráss er hulin óvissu og enn þarf að bæta regluumhverfi fjármálakerfisins.

Að mati sérfræðinga Merill Lynch á Straumur-Burðarás enn talsvert langt í land til þess að verða fullorðinn og verða fullgildur fjárfestingabanki. Óviss framtíð er meðal þess sem stendur bankanum fyrir þrifum. Í ofanálag telur Merill Lynch eignastöðu bankans vera ótrygga þar sem hlutabréfastöður eru í stórum meirahluta sem gerir bankann viðkvæman fyrir ytri aðstæðum.

Þá gerir Merill Lynch krosseignarhaldi góð skil í skýrslunni. "Við teljum að krosseignarhald verði áfram hluti af íslensku viðskiptalífi og áhættan sem tengist því að miklir fjármunir og vald safnist á hendur fárra mun halda áfram að þjaka ímynd íslenskra viðskiptahagsmuna út á við," segir í skýrslunni.

(meira í Viðskiptablaðinu í dag)