Í auglýsingum Símans er fullyrt að Vodafone hafi slökkt á hliðrænum útsendingum RÚV og að 70% landsmanna segi Sjónvarp Símans standa framar helsta keppinautnum, segir í tilkynningu frá Fjarskiptum hf. (Vodafone).

„Báðar þessar fullyrðingar eru rangar, villandi og til þess eins fallnar að kasta rýrð á Vodafone og blekkja neytendur," segir tilkynningunni. „Símanum er fullkunnugt um að lokun á hliðrænum útsendingum RÚV er alfarið ákvörðun RÚV, enda tók Síminn þátt í forvali fyrir lokað útboð RÚV um verkið.

Verkefnið sem boðið var út fólst í því að koma á stafrænum útsendingum í stað hliðrænna á landinu öllu. Síminn stóðst forvalskröfur en heltist úr lestinni á viðræðustigi. Vodafone átti hins vegar hagstæðasta tilboð og var því gengið til samninga við félagið. Með hliðsjón af þessari forsögu er fullyrðing Símans um að Vodafone hafi slökkt á hliðrænum útsendingum RÚV sett fram af ásetningi og gegn betri vitund og framsetning hennar til þess fallin að skapa neikvæð hughrif um þjónustu Vodafone

Hvað varðar hina fyrirvaralausu fullyrðingu Símans um að 70% landsmanna segi Sjónvarp Símans standa framar helsta keppinaut er löng venja fyrir því að sá sem heldur fullyrðingu sem þessari fram beri sönnunarbyrði fyrir henni. Verður fyrir fram að telja yfirgnæfandi löglíkur fyrir að Símanum takist ekki að sanna fullyrðinguna, enda afar ólíklegt að spurningin hafi verið borin undir 70% landsmanna. Fullyrðingin er því röng og ber að banna hana.

Samandregið eru báðar þessar fullyrðingar rangar og villandi. Eru þær til þess fallnar að vera ósanngjarnar gagnvart keppinaut, hafa áhrif á viðskipti og kasta rýrð á vörumerki hans."

Vodafone telur að með þessum auglýsingum hafi Síminn gerst brotlegur við lög nr. 57/2005 um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu.