Kvennaathvarfinu var í dag veittur fjögurra milljóna króna styrkur úr Samfélagssjóði EFLU í tilefni af 50 ára afmæli fyrirtækisins. Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU, afhenti Lindu Dröfn Gunnarsdóttur framkvæmdastýru Kvennaathvarfsins styrkinn á aðalfundi athvarfsins.

Athvarfið hyggst nýta styrkinn til að byggja upp aðstöðu fyrir börn í nýja athvarfinu, en gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist við nýbyggingu Kvennaathvarfsins um næstu áramót.

„Kvennaathvarfið sinnir gríðarlega mikilvægu verkefni í íslensku samfélagi og heldur utan um og styður viðkvæman hóp sem oft á ekki í nein hús að venda. Um leið hefur Kvennaathvarfið haldið á lofti umræðu um heimilisofbeldi og beint kastljósinu að því samfélagsmeini sem heimilisofbeldi er. Framlag Kvennaathvarfsins til samfélagsins er ómetanlegt,“ segir Sæmundur Sæmundsson, framkvæmdastjóri EFLU

„Nýtt kvennaathvarf mun gera okkur kleift að taka á móti fjölbreyttari hópi kvenna“

Samfélagssjóðurinn hefur verið starfræktur síðan árið 2013 og er því 10 ára í ár. Markmiðið með styrkjunum er að styðja við framtak einstaklinga og hópa sem stuðla að farsælli þróun samfélagsins, lífsgæðum og fjölbreyttu mannlífi. Þess vegna þótti tilvalið að styrkja Kvennaathvarfið með þessari afmælisúthlutun.

„Samtök um Kvennaathvarf treystir alfarið á styrki frá almenningi, stofnunum og fyrirtækjum í söfnun sinni fyrir byggingu nýs Kvennaathvarfs. Nýtt kvennaathvarf mun gera okkur kleift að taka á móti fjölbreyttari hópi kvenna, skapa auki rými til alls kyns valdeflingar fyrir konur í dvöl, þróa áfram barnastarfið í rýmum sem að henta sérstaklega til þess og stytta biðtíma eftir viðtali fyrir konur sem ekki eru í dvöl,“ segir Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins.

Auk þess að styrkja Kvennaathvarfið mun EFLA vera með árlega úthlutun úr sjóðnum í haust og hægt er að senda inn umsókn í gegnum vefsíðu fyrirtækisins. Þá hefur EFLA einnig sett á laggirnar Emblu samverudag EFLU þar sem starfsfólk fyrirtækisins og fjölskyldur þeirra hittast í frítíma sínum til þess að framkvæma eitthvað sem nýtist öllu samfélaginu.