Kvika fjárfestingarbanki hefur nú lokið sölu á verðtryggðum víkjandi skuldabréfum í flokknum KVB 15 01 að nafnvirði 550 milljóna króna.

Bréfin eru til 10 ára, verðtryggð og teljast til eiginfjárþáttar B og verða skráð á Nasdaq Iceland fyrir árslok.

Skuldabréfin eru seld á ávöxtunarkröfunni 5,50-6,25% miðað við fyrsta innköllunardag. Þau eru innkallanleg af útgefanda þegar liðin verða fimm ár frá útgáfudegi. Heildarheimild til útgáfu í KVB 15 01 er að nafnvirði 750 milljónir.

Þetta er í fyrsta skipti frá upphafi fjármálakreppunnar í október 2008 sem íslenskur banki selur víkjandi skuldabréf til fjárfesta.

„Þetta er merkur áfangi í framþróun íslenska fjármálamarkaðarins. Við í Kviku erum afar stolt af því að ryðja brautina og vera fyrsti íslenski bankinn sem selur víkjandi skuldabréf til einkafjárfesta eftir fjármálakreppuna,” segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri Kviku.