Hlutabréf Kviku banka hækkuðu um 4,85% í viðskiptum dagsins í 550 milljóna króna viðskiptum, sem er bæði mesta hækkun og mesta velta á aðalmarkaði.

Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,25% og heildarvelta nam 3,3 milljörðum. 15 af 19 félögum á aðalmarkaði hækkuðu og 3 lækkuðu, en bréf Arion banka stóðu í stað þrátt fyrir 291 milljóna króna veltu.

TM hækkaði um 3,22% í 71 milljónar viðskiptum, og Sýn hækkaði um 1,56% í 38 milljóna viðskiptum. Flest önnur félög hækkuðu um undir 1%.

Icelandair, Sjóvá og Skeljungur lækkuðu í viðskiptum dagsins. Flugfélagið féll um 2,67% í 238 milljóna veltu, tryggingafélagið um 1,26% í 192 milljónum og olíufélagið í litlum 1,9 milljóna viðskiptum.

Á eftir Kviku var Marel veltuhæst með 428 milljóna viðskipti sem skiluðu 0,13% hækkun. Þar næst komu Hagar með 314 milljóna króna veltu og 0,17% hækkun.