Stórstjörnurnar hafa í sumar streymt til Íslands og má búast við að landið birtist í að minnsta kosti fimm stórum Hollywoodmyndum á næsta ári. Einn af áhrifaþáttum þess að vaxandi áhugi er meðal framleiðenda erlendra stórmynda er að veittur er skattaafsláttur vegna framleiðslu hér á Íslandi eins og Einar Hansen Tómasson hjá Íslandsstofu ræddi við VB sjónvarp á dögunum.

Afslátturinn var fyrst kynntur til sögunnar með lögum sem samþykkt voru árið 1999. Það þurfti þó evrópska samþykkt áður en hægt var að veita afsláttinn fyrst, árið 2001. Síðan þetta var hefur skatturinn smám saman hækkað, nú síðast úr 14% í 20%.

Hér er um að ræða endurgreiðslu á hluta þess framleiðslukostnaðar sem fellur til hér á landi. Allir sem óska endurgreiðslu þurfa þó að fá samþykki nefndar á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins sem metur meðal annars hvort verkefnið sé til þess fallið að kynna íslenska náttúru og/eða menningu. Þetta gildir jafnt um íslenskar kvikmyndir sem erlendar en alla jafna hafa íslenskar kvikmyndir fengið mun hærri endurgreiðslur en þær erlendu, enda oftast mun fleiri.

Í meðfylgjandi töflu má meðal annars sjá að á fyrstu sex mánuðum þessa árs hafa 392 milljónir verið endurgreiddar. Það þýðir að fjármunirnir sem kvikmyndaframleiðendurnir hafa varið hér á landi nema tæpum tveimur milljörðum króna.

Heildarfjárhæð endurgreiðsla í milljónum króna og fjöldi verkefna sem hlotið hafa endurgreiðslu
Heildarfjárhæð endurgreiðsla í milljónum króna og fjöldi verkefna sem hlotið hafa endurgreiðslu
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.