Kvikmyndahúsakeðjan Cineworld, sem rekur fjölda kvikmyndahúsa á heimsvísu, íhugar að sækja um gjaldþrotaskipti í Bandaríkjunum. Rekstur keðjunnar, sem á einnig bresku kvikmyndahúsakeðjuna Picturehouse, hefur verið mjög þungur undanfarið og skuldar keðjan nú um 5 milljarða dala, eða sem nemur um 706 milljörðum króna. BBC greinir frá.

Í tilkynningu frá félaginu þar sem greint er frá þessu kemur fram að kvikmyndahúsin verði þó áfram opin og að ákvörðunin hafi enn sem komið er ekki stórvægileg áhrif á starfsöryggi starfsfólks kvikmyndahúsanna. Ríflega 28 þúsund manns starfa hjá Cineworld á heimsvísu.

Covid-19 heimsfaraldurinn hefur, rétt eins og í tilfelli annarra kvikmyndahúsakeðja, leikið Cineworld grátt. Kvikmyndahús voru mörg hver lokuð mánuðum saman vegna samkomutakmarkana. Þegar kvikmyndahúsin gátu loks opnað á ný var þeim aðeins kleift að selja í hluta sæta vegna nálægðartakmarkana. Þá hafa auknar vinsældir streymsiveita komið niður á aðsókn í kvikmyndahús.

Gengi hlutabréfa Cineworld féll um 60% á föstudag er fréttir fóru fyrst að berast af því að félagið hefði í hyggju að sækja um gjaldþrotaskipti.