Fjölmiðlanefnd hefur komist að lokaniðurstöðu vegna nokkurra kvartana Símans sem nefndin hefur haft til umfjöllunar frá því í vor. Niðurstaðan er að öllum helstu kvörtunum fyrirtækisins yfir RÚV, sem fjallað var um í fjölmiðlum í sumar, er vísað frá og er það í samræmi við frummat Samkeppniseftirlitsins.

Ekki er tekið undir ásakanir Símans um að RÚV hafi beitt óeðlilegum aðferðum við sölu auglýsinga á HM í sumar. Þannig er hafnað ávirðingum um óeðlileg skilyrði fyrir lágmarkskaupum, kröfu um önnur viðskipti eða bindingu út árið. Einnig er hafnað ásökunum um að viðskiptalegar forsendur auglýsingasölu stjórni dagskrá RÚV.

Fjölmiðlanefnd gerir hins vegar athugasemd við framsetningu verðskrár í tengslum við viðburði. Hefur RÚV þegar brugðist við og breytt framsetningu á vefsíðu sinni til samræmis við ábendingar nefndarinnar. Þá kemst fjölmiðlanefnd að þeirri niðurstöðu að þáttaröðin Saga HM flokkist ekki sem „afleidd dagskrá“ af mótinu, eins og RÚV taldi vera, heldur sem sjálfstæður þáttur sem hafi verið ótengdur HM-útsendingunum. Þetta er þrengri túlkun laganna en RÚV hefur talið. RÚV lýtur þó vitaskuld þessari ákvörðun fjölmiðlanefndar enda er mikilvægt að skýrar leikreglur gildi um viðkvæmt hlutverk RÚV á auglýsingamarkaði.

Minnt skal á að þó að útvarpsgjaldið standi undir hluta af starfsemi RÚV er fyrirtækinu einnig ætlað, sem fyrr, að sækja um það bil þriðjung tekna sinna til sölu auglýsinga með þeim fjölmörgu takmörkunum sem því hafa verið settar á síðustu árum.

Magnús Geir Þórðarson, útvarpsstjóri:

„Ég er sáttur við þessa niðurstöðu. Fjölmiðlanefnd tekur undir túlkun RÚV í öllu helsta umkvörtunarefni Símans. Í því felst viðurkenning á mikilvægri stöðu RÚV á fjölmiðlamarkaði. Við leggjum áherslu á að fylgja þeim reglum sem gilda um þennan þátt starfseminnar rétt eins og starfsfólk RÚV tekur hlutverk sitt í almannaþjónustu alvarlega. Megináherslan í starfsemi RÚV er að upplýsa, fræða og skemmta með sérstaka áherslu á menningu þjóðarinnar og íslenska tungu. Undanfarið höfum við skerpt enn frekar á almannaþjónustuhlutverki okkar með því að efla menningarhluta RÚV og auka úrval og gæði efnis fyrir ungt fólk með KrakkaRÚV og RÚV núll. Samhliða höfum við aukið vægi dýpri umræðu og fréttaskýringa.

Það er jákvætt að mennta- og menningarmálaráðherra hafi boðað aukinn stuðning við einkarekna fjölmiðla og RÚV vill eiga í gjöfulu samstarfi við þá og sjálfstæða framleiðendur. Í þeim tilgangi höfum við gert aðstöðu okkar aðgengilega öllum þessum aðilum og bjóðum aðstoð við að miðla íslensku efni þeirra í alþjóðlega dreifingu. Íslenskir fjölmiðlar, og menning þjóðarinnar í heild sinni, eiga nú í sameiginlegri samkeppni við erlendar efnisveitur og alheimsrisa sem bjóða gríðarlegt magn afþreyingar á erlendri tungu. Á sama tíma soga þessir erlendu miðlar ætíð stærri hluta af því auglýsingafé sem er í umferð í hverju landi. Á slíkum tímum er mikilvægara en nokkru sinni að við stöndum saman og bjóðum upp á framúrskarandi efni þar sem okkar sögur eru sagðar á okkar tungumáli.Við viljum fjölbreytta flóru einkarekinna miðla um leið og mikill meirihluti þjóðarinnar er sammála um að öflugt Ríkisútvarp sé mikilvægt akkeri í íslenskri menningu og samfélagslegri umræðu.“