Eignarhaldsfélagið Kvos, sem meðal annars á prentsmiðjuna Odda og Kassagerðina, hefur stofnað dótturfyrirtæki í Færeyjum til að halda utan um sölustarfsemi félagsins þar. Fyrirtækið hefur fengið nafnið Kassagerðin Føroyar P/F en því er ætlað að styrkja stöðu Kassagerðarinnar í Færeyjum, en þar hafa verið miklar hræringar á umbúðamarkaði að undanförnu, segir í frétt frá félaginu.

Með stofnun fyrirtækis í Færeyjum vilja stjórnendur Kvosar taka sölu og markaðssetningu í eigin hendur og efla samskipti við viðskiptavini. Kassagerðin hefur þjónað færeyska markaðnum með umbúðir í áratugi og ætlar sér að gera það áfram.

„Við höfum notið velgengni í Færeyjum og þar er umtalsverður markaður fyrir vörur Kassagerðarinnar. Með því að stofna þetta fyrirtæki náum við að skerpa á okkar áherslum og ná enn betri tengslum við okkar viðskiptavini“, segir Baldur Þorgeirsson, framkvæmdastjóri innlendrar starfsemi Kvosar, í fréttinni.

Framkvæmdastjóri ytra er Gunnar Djurhuus sem áður var sölustjóri Farpack, sem var umboðsaðili Kassagerðarinnar í Færeyjum.

Kvos er alþjóðlegt eignarhalds- og fjárfestingafélag í prentiðnaði og skyldum rekstri. Kvos á 10 dótturfélög á Íslandi, í Bandaríkjunum og Evrópu, með rúmlega 1.300 starfsmenn.