*

laugardagur, 19. september 2020
Innlent 7. maí 2020 11:11

Kynnisferðir og Eldey að sameinast

Fjárfestingafélagið Eldey verður hluhafi í Kynnisferðum, stærsta hópbifreiðafyrirtæki landsins.

Ritstjórn
Björn Ragnarsson, framkvæmdastjóri Kynnisferða.
Eva Björk Ægisdóttir

Undirritað hefur verið samkomulag um sameiningu Kynnisferða og félaga sem eru í eignasafni Eldeyjar, en með sameiningunni verður til eitt stærsta félag landsins sem sinnir afþreyingartengdri ferðaþjónustu. Unnið er að frekari útfærslu samrunans, eins og áreiðanleikakönnun og tilkynningu til Samkeppniseftirlitsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Íslandsbanka.

Eldey TLH hf. hefur fjárfest í afþreyingartengdri ferðaþjónustu og er meðal annars hluthafi í Norðursiglingu, Arcanum Fjallaleiðsögumönnum, Dive.is og Logakór. Eldey er í eigu lífeyrissjóða, Íslandsbanka og einkafjárfesta og hefur sjálfstæða stjórn og ráðgjafaráð. Félagið er með eignastýringarsamning við Íslandssjóð. Með sameiningunni verða hluthafar Eldeyjar hluthafar í Kynnisferðum.

Kynnisferðir eru eitt stærsta ferðaþjónustufyrirtæki landsins en sinnir til viðbótar annarri starfsemi t.d undirverktöku fyrir Strætó.

Í tilkynningunni segir að markmið sameiningarinnar sé að hagræða í rekstri ásamt því að styrkja sameiginlegt sölu- og markaðsstarf. Fyrirtækjaráðgjöf Arctica Finance er ráðgjafi Kynnisferða og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka ráðgjafi Eldeyjar.

Björn Ragnarsson framkvæmdastjóri Kynnisferða:

„Þessi sameining er mikilvæg fyrir alla samrunaaðila sem munu sameinaðir standa styrkari fótum í þeim áskorunum sem ferðaþjónustan stendur frammi fyrir sem og betur í stakk búnir til að grípa þau tækifæri sem kunna að skapast. Það hefur aldrei verið mikilvægara en nú."

Hrönn Greipsdóttir framkvæmdastjóri Eldeyjar:

„Með þessari sameiningu náum við að búa til stórt og öflugt ferðaþjónustufyrirtæki sem hefur verið markmið Eldeyjar frá upphafi. Sameinað félag kemur til með að bjóða upp á fjölbreytta afþreyingu og þjónustu fyrir alla þá sem vilja njóta náttúru Íslands."