Oddgeir Einarsson, lögmaður Mjólkurbúsins ehf., skrifar grein í Fréttablaðið í dag þar sem hann segir „kýrskýrt“ að Mjólkursamsalan (MS) geti ekki talist afurðastöð í skilningi búvörulaga. Því geti fyrirtækið ekki notið undanþágu frá ákvæðum samkeppnislaga.

Í greininni segir Oddgeir að hugtakið sé skilgreint í búvörulögum þannig að afurðastöð sé hver sú atvinnustarfsemi lögaðila eða einstaklings sem taki við búvörum úr höndum framleiðanda til vinnslu, flokkunar, pökkunar, geymslu, heildsölu og/eða dreifingar. Að mati Mjólkurbúsins hafi MS aldrei uppfyllt þetta skilyrði þar sem félagið hafi aldrei átt í viðskiptum við framleiðendur, þ.e. bændur, með mjólk.

Í versta falli blekking

Oddgeir segir að hið rétta sé að Auðhumla, sem er eigandi meirihluta hlutafjár í MS, kaupi mjólkina af bændum og eigi þær fasteignir sem mjólkin er lögð inn í eftir að hún hefur verið sótt til bænda. Af þeim sökum sé Auðhumla, og hafi alltaf verið, aðili að Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) en MS ekki.

Hann kemur einnig inn á útskýringar forstjóra MS sem birtust í fjölmiðlum þar sem hann sagðist telja vangavelturnar byggðar á misskilningi, því MS væri skilgreind sem afurðastöð samkvæmt Matvælastofnun. Oddgeir segir að hvergi í regluverki Matvælastofnunar sé henni falið að skilgreina hvaða aðilar séu afurðastöð, og tilvísun forstjórans í skilgreiningu hennar sé því í besta falli misskilningur en í versta falli blekking.

Ekkert breyst frá árinu 2010

Lögmaðurinn segir einnig að í fréttatilkynningu sem birtist í Viðskiptablaðinu þann 28. janúar 2010 hafi verið fjallað um ráðningu Guðna Ágústssonar til SAM. Þar hafi sagt að afurðastöðvar, sem taki við mjólk beint frá framleiðendum, eigi rétt á að gerast aðilar að samtökunum. Allar afurðastöðvar landsins ættu aðild að SAM. Það hafi því verið alveg kýrskýrt árið 2010 að MS var ekki afurðastöð heldur Auðhumla. Ekkert hafi breyst síðan þá.

Að lokum segir Oddgeir:

„Á mjólkurfernum MS stendur nú áberandi stöfum: „Hefur þú flett ofan af fornu samsæri nýlega?“ Þeirri spurningu er auðsvarað.“