Úrvalsvísitalan hefur lækkað um meira en hálft prósent í fyrstu viðskiptum í dag, sem má eflaust rekja til vaxtahækkunar Seðlabankans. Ávöxtunarkrafa á skuldabréfamarkaði hefur sömuleiðis hækkað og krónan styrkst í morgun.

Icelandair, Marel og Eimskip leiða hækkanir en gengi félaganna þriggja hefur lækkað um meira en 1,5% í morgun. Gengi Icelandair er komið niður í 2,04 krónur og Marels stendur nú í 540 krónum.

Velta á skuldabréfamarkaðnum nemur 4 milljörðum króna það sem af er degi. Ávöxtunarkrafa á óverðtryggðum ríkisskuldabréfum hefur hækkað um 9-25 punkta í þeim flokkum þar sem viðskipti hafa átt sér stað. Verðtryggð ríkisskuldabréf hafa hækkað um 8-9 punkta.

Íslenska krónan hefur styrkst um meira en 1% gagnvart Bandaríkjadalnum og stendur gengið nú í 140,5. Þá er gengi evrunnar gagnvart krónunni komið niður í 151,1 eftir meira en hálfs prósentu styrkingu.

Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun um 0,5 prósentu stýrivaxtahækkun. Í yfirlýsingu sinni sagði nefndin að líklega þurfi að auka aðhaldið enn frekar á næstunni.