Verðþróun á heimsmarkaði með olíu hafði neikvæð áhrif á uppgjör N1 á þriðja ársfjórðungi 2015. Framlegð af vörusölu lækkar lítillega milli ára en hún nam 3.004 milljónum á fjórðungnum mið­ að við 3.082 milljónir árið áður. Rekstrarhagnaður félagsins fyrir afskriftir og fjármagnsliði nemur 1.110 milljónum króna en hann var 1.252 milljónir árið áður.

„Það var við því að búast að uppgjörið yrði verra en á sama tíma í fyrra þar sem það var nokkuð snörp lækkun á heimsmarkaðsverði á olíu á fjórðungnum. Fé­lagið var búið að gefa til kynna við hálfs­ ársuppgjörin að það myndi koma niður á framlegðartölunum, sem það gerði,“ segir Elvar Ingi Möller hjá greiningardeild Arion banka. „Engu að síður þá var uppgjörið aðeins lakara en við gerðum ráð fyrir.“ Að sögn Elvars er ástæða lakara uppgjörs einna helst rakin til aukningar í sölu- og dreifingarkostnaði en hann var meiri en gert hafði verið ráð fyrir og heldur en hann hafði verið á fyrri hluta ársins.

Frummatsskýrsla samkeppniseftirlitsins hafið áhrif

Samkeppniseftirlitið birti frumskýrslu um eldsneytismarkaðinn mánudaginn 30 nóvember sl. en þar sagði eftirlitið m.a. að það teldi þörf á íhlutun á samkeppnismarkaði. Sama dag og skýrslan var birt lækkuðu hlutabréf í N1 úr 42,2 krónum á hlut í 41,3 krónur á hlut, eða um 2,13%, í 350 milljóna króna viðskiptum á fyrsta degi eftir birtingu skýrslunnar. Lægst fóru hlutabréfin í 40,6 krónur á hluta við lokun markaða mið­vikudaginn 2. desember, en það er lækkun um tæp 4% frá lokagengi föstudagsins 27. nóvember. Mögulegt er að fjárfestar hafi áhyggjur af því að möguleg íhlutun á olíumarkaði muni auka við kostnað olíufélaga, t.d. með mögulegu banni á samrekstri olíufélaganna á birgða- og dreifingarstigi markaðarins, þ.e. Olíudreifingu ehf.