Gengi hlutabréfa hefur lækkað nokkuð almennt það sem af er degi í Kauphöllinni. Gengi hlutabréfa stoðtækjaframleiðandans Össurar hefur þar af fallið um 2,25% og er það mesta gengislækkun dagsins. Heildarvelta með hlutabréf nemur rúmum 600 milljónum króna.

Á sama tíma hefur gengi bréfa Eimskips lækkað um 1,71%, Icelandair Group hefur lækkað um 1,54%, Haga um 1,36%, TM hefur farið niður um 0,99%, VÍS um 0,86% og Marel um 0,38% og bréf fasteignafélagsins Regins hefur lækkað um 0,36%.

Hlutabréf Vodafone eru þau einu sem hafa ekki tekið neinum breytingum það sem af er degi í Kauphöllinni.

Úrvalsvísitalan hefur lækkað um 1% það sem af er degi og stendur hún í 1.134 stigum. Hún hefur ekki verið lægri síðan í byrjun júlí.