Í skjali sem fannst við húsleit árið 2009 merkt almannatenglinum Gunnari Steini Pálssyni var sett fram víðtæk áætlun um áhrif á umræðu um helstu lykilpersónur í hruninu sem honum tengdust. Í skjalinu kemur m.a. fram hvernig hægt vær að stofna bloggher til að hafa áhrif á umræðuna. Gunnar Steinn hefur unnið mikið fyrir Sigurð Einarsson, fyrrverandi stjórnarformann Kaupþings og Hreiðar Má Sigurðsson, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings-samstæðunnar, auk þeirra Ágústar og Lýðs Guðmundssona í Bakkavör.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í bókinni Ísland ehf. Auðmenn og áhrif eftir hrun eftir þá Magnús Halldórsson og Þórð Snæ Júlíusson. Bókin kemur út á fimmtudag í næstu viku. Morgunblaðið fjalllar um bókina í dag og ræðir við Gunnar um skjalið. Hann segist ekki hafa ræst út bloggher.

„Ég hef ráðið menn mér til ráðgjafar og aðstoðar fyrir þau fjölmörgu verkefni sem ég sinni á sviði almannatengsla, og sumir þeirra hafa vissulega verið þátttakendur í bloggheimum,“ segir hann.