Mjög auðvelt er að endurdreifa hagnaði orkufyrirtækja vegna hærra raforkuverðs til heimila landsins til þess að tryggja þeim óbreytt raforkuverð, til dæmis með að lækka skatta eða greiða þeim út arð í einhverju formi, að mati fjármálafyrirtækisins Gamma. Gamma segir í skýrslu sem unnin var fyrir Landsvirkjun um áhrif sæstrengs á hag íslenskra heimila að lágt raforkuverð hér á landi til íslenskra heimila sé ákveðin lífskjarastefna. Þetta sé mjög óskilvirk stefna byggi hún á því að halda raforkuverði lágu í öllu raforkukerfinu og til allra raforkukaupenda.

Skýrslan var kynnt í Þjóðmenningarhúsinu í morgun.

Í skýrslu Gamma segir að íslensk heimili noti aðeins 5% af raforkuvinnslu hér á landi og hafi lífskjarastefnan því mjög lélega nýtingu. Hærri tekjur af sölu 95% raforkunnar þegar notkun heimilanna hefur verið dregin frá, skila gríðarlegum þjóðhagslegum ábata, að mati Gamma.

Í skýrslu Gamma er nefnt að í mörgum olíuframleiðsluríkjum sem endurdreifi hagnaðinum af olíusölunni, t.d. með því að sjá þegnum sínum fyrir mjög ódýru eldsneyti. Slík arðgreiðslustefna hljóti þó ávallt að leiða til einhverrar sóunar þar sem framboð á ákveðnum framleiðsluþætti á undirverði leiðir til óhóflegrar notkunar á þeim sama þætti.

Sæstrengur eykur hagnað

Þá segir í skýrslu Gamma að lagning sæstrengs muni auka skilvirkni í orkuframleiðslu þar sem vannýtt umframleiðslugeta hverfi að mestu. Það muni svo lækka meðalkostnað í allri raforkuvinnslu landsins og skapað Landsvirkjun töluverðum hagnaði.

Í skýrslu Gamma segir orðrétt:

„Þannig getur skapast töluverður hagnaður hjá Landsvirkjun án þess að orkuverðið hækki. Aukinheldur mun sæstrengssala rafmagns minnka verulega rekstraráhættu íslenskra orkufyrirtækja og greiða þannig fyrir fjármögnun þeirra. Hvoru tveggja hlýtur að vera mikið hagsmunamál fyrir heimili landsins sem eru í ábyrgð fyrir skuldum Landsvirkjunar og reykvísk heimili sem eru í ábyrgð vegna skulda Orkuveitunnar. Það hlýtur í öllu falli að vera ákaflega varasamt, og jafnvel óverjandi sjónarmiði skattgreiðenda að halda áfram á sömu braut og auka raforkusölu til áliðnaðar með ábyrgð ríkisins.“