Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum á þriðjudag, að tillögu Árna M. Mathiesen fjármálaráðherra, að leggja til við alþingi að virðisaukaskattur á geisladiska verði lækkaður í 7%, segir í tilkynningu.

Þar segir að lækkunin tekur gildi þann 1. mars 2007 um leið og aðrar boðaðar breytingar taka gildi á virðisaukaskattslögunum.


Með breytingunni verður virðisaukaskattur af geisladiskum færður úr efra þrepi virðisaukaskatts í neðra þrep og þar með komið til móts við ósk tónlistarmanna og hljómplötuframleiðenda um jafnari samkeppnisstöðu tónlistar við aðrar listgreinar.

Frumvarpið verður lagt fram á alþingi á næstu dögum.