Arion banki yfirtekur íbúðalán til á fimmta þúsund einstaklinga þegar bankinn tekur yfir 56 milljarða útlánasafn frá slitastjórn Dróma. Um er að ræða lán sem áður tilheyrðu Spron, Frjálsa fjárfestingarbankanum og eignasafni Seðlabanka Íslands. Stór hluti þessara einstaklinga er þegar í viðskiptum við bankann þar sem innlán fyrrverandi viðskiptavina Spron voru á sínum tíma færð til Arion banka.

Þetta kemur fram í svari bankans við fyrirspurn Viðskiptablaðsins.

Þar segir enn fremur að þau þrjú lánasöfn sem bankinn taki nú yfir nemi um 10% af lánasafni Arion banka og að það liggi fyrir að vanskil séu að meðaltali hærri í lánasöfnunum en annars er hjá bankanum. Það er því viðbúið að vanskilahlutföll bankans muni hækka lítillega við yfirtökuna frá því sem ella hefði verið. Unnið verði að því að lækka vanskilahlutföll bankans aftur eins og gert hefur verið á undanförnum árum. Unnið er að því þessa dagana að klára að færa lánin til bankans og ætti þeirri vinnu að vera lokið innan nokkurra vikna.