Stefán Hermannsson, framkvæmdastjóri Austurhafnar, sagði í samtali við Viðskiptablaðið í vikunni, að verið væri að ganga frá samningum um kaup á Portusi og systurfélagi þess, Situsi, og byggingarrétti sem tilheyrði þeim félögum af fyrri eigendum, þ.e. af NBI, gamla Landsbankanum sem og Nýsi.

Portus er sem kunnugt er komið í þrot en félagið var upphaflega stofnað til að reisa og reka tónlistar- og ráðstefnuhús í Reykjavík. Austurhöfn hefur með viljayfirlýsingu menntamálaráðherra og borgarstjóra tekið verkefnið yfir.

Stefán vill ekki gefa upp kaupverðið en segir að það verði hægt að fá til baka með endursölu á byggingarrétti og lóðum.

Jafnframt er verið að ganga frá samningum við NBI um áframhaldandi byggingu tónlistar- og ráðstefnuhússins. Upphæðin hljóðar upp á 13,3 milljarða miðað við verðlag í október 2008.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdin verði fjármögnuð í þremur áföngum og að þrír bankar taki þátt í öðrum áfanganum, þ.e. auk NBI, eru það Íslandsbanki og Kaupþing. Enn á þó eftir að ganga frá því.

Stefán segir að ráðgert sé að lánið verði með veði í áður ákveðnu fjárframlagi ríkis og borgar til verkefnisins á næstu 35 árum. Það þýði með öðrum orðum að það framlag verði notað til að greiða niður lánið.

Framlagið hljóðar nú upp á 808 milljónir á ári. Auk þess er gert ráð fyrir að hluti af leigu Sinfóníuhljómsveitarinnar verði notaður til að greiða niður lánin.

Samkvæmt ákvörðun Austurhafnar, borgar og ríkis frá árinu 2004, var ákveðið að árlegt opinbert framlag til tónlistar- og ráðstefnuhússins yrði  595 milljónir á ári í 35 ár eftir að húsið yrði tilbúið. Sú upphæð er, sem fyrr segir, komin upp í 808 milljónir miðað við verðlag í október 2008.