Hagnaður Lánasjóðs sveitarfélaga nam 1.046 milljónum króna í fyrra samanborið við 247 milljónir króna árið 2014. Afkoma ársins fyrir óreglulega liði nam 818 milljónum króna samanborið við 711 milljónir króna árið 2014.

Samkvæmt tilkynningu til kauphallar skýrist mismunur á milli ára af tekjufærslu á árinu vegna dóms Hæstaréttar þar sem Lánasjóðurinn var dæmdur til að greiða 190 milljónir króna vegna gengisláns. Það er lækkun frá dómi Héraðsdóms um 246,4 milljónir krónaog því um tekjufærslu að ræða. Ef ekki væri fyrir þá tekjufærslu væri afkoma ársins í samræmi við undanfarin ár, að því er segir í tilkynningunni.

Heildareignir sjóðsins í lok árs voru 77.111 milljónir króna á móti 76.782 milljónum króna í árslok 2014. Heildarútlán sjóðsins námu 71.134 milljónum króna í lok árs samanborið við 71.347 í árslok 2014.

Þá nam eigið fé 16.712 milljónum króna á móti 15.666 milljónum króna í árslok 2014 og hefur hækkað um 6,7% á árinu. Vegið eiginfjárhlutfall samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki er 79% en var 68% í árslok 2014.