Tekjuafgangur Lánasjóðs sveitafélaga ehf. árið 2008 var 1.225 milljónir króna samanborið við 1.219 milljóna króna árið áður.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá sjóðnum en þar segir að afkoma ársins hefði verið mun betri ef ekki hefði komið til niðurfærslu að verðmæti 1.472 milljónir króna vegna afleiðusamninga sem sjóðurinn hafði gert við Glitni banka.

Þá kemur fram að háir vextir á innlendum markaði svo og mikil verðbólga skiluðu mjög góðri afkomu en eignir sem samsvara eigin fé sjóðsins eru að mestu bundnar í verðtryggðum útlánum.

„Ávöxtun á lausu fé var einnig framúrskarandi, en mestur hluti þess var varðveittur í Seðlabankanum,“ segir í tilkynningunni.

Meginhlutverk sjóðsins er að tryggja sveitarfélögum, stofnunum þeirra og fyrirtækjum lánsfé á hagstæðum kjörum.

Útborguð langtímalán á árinu 2008 voru 15.505 milljónir króna miðað við  4.047 milljónir á fyrra ári. Skammtímalánveitingar sjóðsins námu hinsvegar 6.158 milljónum króna á árinu en voru 5.840 milljónir króna á fyrra ári.

„Aðstæður til töku langtímalána, bæði verðtryggðra og gengistryggðra, voru einstaklega óhagstæðar á árinu,“ segir í tilkynningunni.

„Mikil aukning varð í eftirspurn eftir lánum hjá sjóðnum eftir fall bankanna og tókst sjóðnum að bregðast skjótt við og veita mikið af lánum á síðustu mánuðum ársins. Þar eiga lífeyrissjóðir landsins mikinn þátt sem þátttakendur í skuldabréfaútboðum sjóðsins. „

Þá kemur fram að sjóðurinn hefur ekki tapað útláni frá því að hann hóf starfsemi árið 1967 og engin vanskil voru í árslok 2008. Sveitarfélögin bera ekki ábyrgð á skuldbindingum sjóðsins, en tryggingar fyrir útlánum hans eru í tekjum sveitarfélaga samkvæmt grein sveitarstjórnarlaga og reglugerðar um tryggingar Lánasjóðs sveitarfélaga í tekjum sveitarfélags.

Eigið fé í árslok 2008 var 11.273 milljónir króna á móti 10.048 milljónum árið áður. Vegið eiginfjárhlutfall, svonefnt CAD-hlutfall, var í árslok 2008 57% en var 112% í árslok 2007, en þarf að vera 8% skv. lögum um fjármálafyrirtæki.

Gert ráð fyrir góðri afkomu áfram

Þá er gert ráð fyrir að afkoma sjóðsins á árinu 2009 verði svipuð og árin 2008 og 2007. Aðstæður á lánsfjármörkuðum muni þó hafa úrslitaáhrif á möguleika sjóðsins til að koma til móts við lánsfjárþörf sveitarfélaganna á árinu.

„Allt kapp verður lagt á að tryggja lánshæfi sjóðsins og viðhalda því trausti sem fjárfestar hafa á skuldbindingum hans,“ segir í tilkynningu sjóðsins.

„Lánasjóðurinn mun að öðru leyti starfa í meginatriðum líkt og undanfarin ár þar sem stefnt hefur verið að eflingu á starfsemi hans og aukinni þjónustu við sveitarfélögin með því að nýta gott lánstraust sjóðsins til að útvega sveitarfélögunum lánsfé á hagstæðum kjörum.“