Landbúnaðarháskóli Íslands trónir á toppnum yfir framúrkeyrslu fjárheimildar í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um fjármálastjórn ráðuneyta og stofnana ríkisins. Uppsafnaður halli Landbúnaðarháskólans var 54,4% af fjárheimild í árslok 2008 og nam hallinn 265 milljónum króna. Sú stofnun sem komst næst hlutfallslega var Heilsugæslustöðin á Ólafsfirði með 22,5% halla sem nam 14 milljónum króna. Í þriðja sæti hlutfallslega var Þjóðgarðurinn á Þingvöllum með 18,5% og jafnar og næstar voru Námsmatsstofnun og Heilsugæslustöðin Borgarnesi með 18,2%.

Langmesti hallinn hjá Landspítala

Í fjárhæðum talið var langstærsti hallareksturinn hjá Landspítala, eða 1636 milljónir króna, sem er 4,5% af fjárheimild. Í öðru sæti var Heilsugæsla á höfuðborgarsvæðinu með 420 milljónir og 8,2%, en Landbúnaðarháskólinn var með þriðja mesta hallann í krónum talið.

Aðrar stofnanir með meira en 100 milljóna króna halla voru Lögreglustjórinn á Suðurnesjum, með 186 milljónir og 15,1% af fjárheimild, Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu með 163 milljónir og 5,1%, Fjölbrautaskólinn í Breiðholti með 112 milljónir og 12,7%, og Háskólinn á Akureyri með 102 milljónir, sem gera 6,6% af fjárheimild.