Í upphaflegum útboðsgögnum vegna afþreyingarfyrirtækisins Senu kom fram að Landsbankinn væri með veð í öllum hlutabréfum Senu. Í síðustu viku uppgötvaðist hins vegar að hann ætti einungis veð í einu prósenti.

Hlutafé hefði verið aukið upp í 408 milljónir króna árið 2006 en svo virðist sem Landsbankinn, og Straumur sem sá um söluferlið, hafi ekki gert sér grein fyrir því fyrr en í síðustu viku.

Tilkynnt var í dag að gengið hefði verið að tilboði Jóns Diðriks Jónssonar og Magnúsar Bjarnasonar í Senu og segir enn fremur í tilkynningu að heildarvirði fyrirtækisins sé metið á 500 milljónir króna.

Jón Ólafsson og bandaríska umboðsfyrirtækið William Morris Agency voru meðal þeirra sem lögðu inn óskuldbindandi tilboð í janúar og í kjölfarið var gengið til viðræðna við þá sem lögðu inn hagstæðustu tilboðin.

Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins hætti Jón og bandaríska fyrirtækið við að leggja inn bindandi tilboð m.a. vegna þess að forsendur breyttust skyndilega í síðustu viku.

Íhugar William Morris Agency nú að höfða mál vegna þessa.