Landsbankinn og bandaríski bankinn Wachovia koma til með að starfa saman að veitingu eignatengdra lána (e.asset based lending) í Evrópu og Norður-Ameríku samkvæmt samkomulagi sem bankarnir gengu frá í gær.Að sögn Sigurjóns Þ. Árnasonar bankastjóra Landsbankans felur samkomulagið í sér nána samvinnu.

"Við munum beina viðskiptum til hvors annars sem hefur í för með sér að Landsbankinn verður fulltrúi Wachovia í Evrópu og öfugt. Við munum beina viðskiptavinum okkar sem þurfa á þessari tegund fjármögnunar að halda í Bandaríkjunum til þeirra og þeir til okkar. Þannig gengur þetta samstarf í báðar áttir," segir Sigurjón.

Að sögn Sigurjóns er um afar mikilvægan samstarfsamning að ræða þar sem Wachovia er einn stærsti veitandi eignatengdra lána í Norður Ameríku. Wachovia er tuttugu sinnum stærri en Landsbankinn, fjórði stærsti banki Bandaríkjanna og meðal stærstu banka í heimi.

"Í okkar augum er samstarfið við Wachovia sem er eitt stærsta fjármálafyrirtæki Bandaríkjanna stór áfangi og mikil viðurkenning fyrir okkur,enda ákveðin traustsyfirlýsing að þeir hafi valið okkur til samstarfs," segir Sigurjón.
Eignatengd lán eru tiltölulega flókin útlánastarfsemi til fyrirtækja í rekstri en í meginatriðum er lánað út á vörubirgðir og viðskiptakröfur. Sigurjón segir að þessi tegund fjármögnunar hafi lengi verið vinsæl í Bandaríkjunum en hún sé skemur á veg komin í Evrópu.

"Við búum hinsvegar að mikilli reynslu á þessu sviði sem ekki er algengt meðal evrópskra fjármálafyrirtækja, auk þess að vera með umfangsmikla starfsemi í mörgum Evrópulöndum. Wachovia er hinsvegar með lungann af sinni starfsemi í Bandaríkjunum þar sem Landsbankinn hefur enn sem komið er takmarkaða starfsemi. Samstarfið gerir því báðum fyrirtækjum kleift að styðja betur við viðskiptavini sína þegar þeir sækja fram á nýja markaði," segir Sigurjón. "Þetta samstarf kemur til með að afla okkur fjölda nýrra viðskiptavina," bætir hann við.

Wachovia starfrækir bankaþjónustu um öll Bandaríkin og rekur þar alls 3.375 útibú, auk þess að starfrækja tryggingafélag, hlutabréfamiðlun, húsnæðislánaþjónustu, og fleira. Starfsemi bankans er þó ekki eingöngu bundin við Bandaríkin heldur nær hún til 40 annarra landa. Heildareignir Wachovia námu í árslok síðasta árs 707 milljörðum dala sem samsvarar til 50.750 milljarða króna. Markaðsvirði Wachovia er 108 milljarðar dala eða 7.760 milljarðar króna.