Bankastjórn Landsbankans hefur ákveðið að almennt hámark íbúðalána hjá bankanum verði 80 prósent af markaðsverðmæti íbúða. Í tilkynningu frá bankanum kemur fram að þessi ákvörðun er tekin í ljósi þess að aðstæður á fasteignamarkaði eru að breytast og ekki er gert ráð fyrir að áframhald verði á þeim hröðu verðhækkunum sem átt hafa sér stað að undanförnu.

"Við slíkar aðstæður má lítið út af bregða hjá lántakendum til þess að raska verulega fjárhag þeirra, sérstaklega þar sem um verðtryggð lán er að ræða. Landsbankinn grípur til þessara aðgerða til að draga úr hættu á því að viðskiptavinir bankans lendi í þeirri stöðu að lán þeirra verði hærri en markaðsverðmæti eignarinnar," segir í tilkynningu bankans.

Þar segir einnig að með þessari breytingu er Landsbankinn einnig að leggja sitt af mörkum til þess að slá á þenslu í þjóðfélaginu og styðja Seðlabankann í því markmiði að halda verðbólgu í skefjum og viðhalda þannig efnahagslegum stöðugleika. Að mati bankastjórnar Landsbankans hafa bæði bankinn og viðskiptavinir hans hagsmuni af því að það markmið nái fram að ganga.

Landsbankinn leggur metnað í að veita viðskiptavinum sínum trausta fjármálaþjónustu og lítur svo á að hann hann hafi mikilvægu hlutverki að gegna við að veita viðskiptavinum sínum ábyrga ráðgjöf og sporna við óhóflegri lántöku.

Á grunni þessarar stefnu tók Landsbankinn í desember ákvörðun um að lækka hámarkslán úr 100 prósent í 90 prósent og nú, í ljósi aðstæðna á markaði, úr 90 prósent í 80 prósent.

"Það er bæði Landsbankanum og viðskiptavinum hans mikilvægt að komið verði í veg fyrir að sú staða komi upp á hrein eign í íbúðarhúsnæði verði neikvæð. Með þessari breytingu nú vill bankinn draga úr hættunni á að sú staða komi upp," segir í tilkynningu bankans.

Landsbankinn mun áfram veita brúunarlán og skammtímalán til viðskiptavina sem þurfa tímabundið að mæta heildarfjármögnun við kaup á fasteign-. Slík lán eru veitt á grundvelli mats á fjárhags- og tryggingastöðu. Bankinn mun þó áfram að skoða sérstök tilvik og veita lán með hærri veðhlutföllum ef sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Þetta getur til að mynda átt við gagnvart yngri viðskiptavinum sem eru að kaupa sína fyrstu íbúð á hóflegu verði og heildarskuldbinding kaupenda er að mati bankans viðráðanleg í ljósi mats á fjárhags- og tryggingarstöðu.