Landsbankinn hefur gert yfirtökutilboð í öll hlutabréf breska verðbréfa- og fjárfestingabankans Bridgewell. Tilboðið hljóðar upp á 125 pens á hlut sem þýðir að heildarvirði bankans er metið á 60,3 milljónir punda eða sem svarar til 7,5 milljarða íslenskra króna, segir í frétt á vefsíðu Electronic News Publishing í Bretlandi. Breski bankinn Teather & Greenwood, sem Landsbankinn keypti árið 2005 og Bridgewell verða sameinaðir undir nafninu Landsbanki Securities UK.

Sigurjón Þ. Árnason, bankastjóri Landsbankans, segir í fréttinni að þetta sé mikilvæg yfirtaka fyrir Landsbankann til þess að styrkja starfsemi bankans í Bretlandi. Eins styrki þetta stöðu hans á fyrirtækja- og fjárfestingasviði. ?Við höfum mikla trú á starfsfólki Bridgewell og viðskiptavinum þeirra. Þessi yfirtaka er mikilvægt skref í áætlunum Landsbankans um að verða leiðandi Evrópskur fjárfestinga- og fyrirtækjabanki sem einbeitir sér að því að sinna millistórum viðskiptavinum frá fyrirtækjum,? segir Sigurjón.

Bridgewell bankinn var stofnaður árið 2000 og hjá honum starfa um 130 starfsmenn. Heildartekjur bankans árið 2006 voru 30,8 milljónir punda eða sem svarar til 3,9 milljarða króna. Hagnaður fyrir árið 2006 var 4,5 milljónir punda eða sem svarar til 560 milljóna íslenskra króna.