Landsbankinn hefur verið tekinn út af lista breska fjármálaráðuneytisins með aðilum og ríkjum sem sæta fjárhagslegri refsiaðgerð af hálfu Breta.

Í staðinn hefur nafn bankans verið sett neðanmáls. Þar er sérstaklega tekið fram að þótt eignir hans hafi verið frystar, sé það ekki í tengslum við hryðjuverk.

Úr herbúðum Breta fást þær upplýsingar að vonast sé til þess að þetta liðki fyrir samningum breskra og íslenskra stjórnvalda vegna Icesavereikninganna.

Íslensk stjórnvöld vonast sömuleiðis til að um leið og samningar náist verði eignir Landsbankans affrystar og bankinn alfarið tekinn út af listanum.

Meðal þeirra sem eru á listanum má nefna al Kaída, talibana, Íran, Írak, Norður-Kóreu og Súdan. Bresku hryðjuverkalögunum var, eins og kunnugt er, beitt gegn Landsbankanum 8. október vegna Icesave-reikninganna.

Fulltrúar breskra og íslenskra stjórnvalda funduðu í utanríkisráðuneytinu í gær vegna Icesave- reikninga Landsbankans í Bretlandi.

Ásmundur Stefánsson ríkissáttasemjari leiðir viðræðurnar fyrir hönd íslenskra stjórnvalda.

Í hópi bresku sendinefndarinnar eru fulltrúar frá breska fjármálaráðuneytinu og breska seðlabankanum. Viðræðurnar snúast um greiðslur til sparifjáreigenda í Icesave.