Hagnaður Landsbankans nam 28,8 milljörðum króna eftir skatta á síðasta ári samanborið við 25,5 milljarða króna á árinu 2012. Aukningin skýrist einkum af hærri þjónustutekjum, virðisbreytingum lána og hlutabréfa auk lækkunar á kostnaði. Hrein virðisbreyting útlána og krafna er 13 milljarðar króna.

Steinþór Pálsson bankastjóri segir í yfirlýsingu vegna ársreikningsins að á árinu 2013 hafi reiknaðir skattar Landsbankans hækkað um 8,2 milljarð króna miðað við árið á undan og nemi nú 12,3 milljörðum. „Augljóst er að svo þungir skattar kunna að hafa áhrif á kjör til viðskiptavina til lengri tíma,“ segir hann.

„Afkoma Landsbankans er góð og sýnir traustan rekstur á öllum sviðum. Tekjur bankans fara hækkandi og á sama tíma hefur verið dregið verulega úr rekstrarkostnaði. Arðsemi eigin fjár er ágæt þrátt fyrir hátt eiginfjárhlutfall. Vegna traustrar lausafjárstöðu í erlendri mynt greiddi bankinn annað árið í röð stóra fjárhæð inn á skuld sína við LBI hf. Þá greiddi Landsbankinn um 10 milljarða króna í arð á árinu og bankaráð hefur samþykkt að leggja til við aðalfund bankans að greiddur verði 20 milljarða króna arður vegna reksturs ársins 2013. Hagur eigenda, þar með ríkissjóðs sem stærsta eiganda, af góðum rekstri bankans blasir því við,“ segir í yfirlýsingu Steinþórs.