Greiningardeild Landsbankans spáir 0,5% hækkun vísitölu neysluverðs (VNV) í júlí, ef af verður mun tólf mánaða verðbólga hækka úr 8,0% í 8,5% og hefur ekki verið hærri síðan í mars 2002.

?Í síðustu verðbólguspá var þeirri spurningu velt upp hvort verðbólgutoppnum væri náð. Það rættist ekki," segir greiningardeildin. ?Við teljum að verðbólgan frá ársbyrjun til ársloka 2006 verði 8% en hjaðni svo á næsta ári. Til að þessi spá rætist ætti að draga lítillega úr verðbólgunni það sem eftir lifir árs."

Útsölur segja til sín

Áhrif útsala á vísitöluna hafa aukist síðustu ár. ?Til að mynda var lækkun fata- og skóliðarins um 9% í júlí fyrir ári síðan. Við gerum ráð fyrir töluverðum verðlækkunum á komandi útsölum þó svo að þær verði sennilega ekki jafn miklar og fyrir ári, sér í lagi vegna veikingar krónunnar. Sömuleiðis munu koma fram nokkrar lækkanir á húsgögnum og heimilisbúnaði, en þess kyns útsölur eru nú í fullum gangi," segir greiningardeildin.

Matar- og drykkjarliðurinn hækkaði um í síðasta mánuði og gerir greiningardeildin væntir frekari hækkana þar sem veiking krónunnar á enn koma fram að fullu í verðlagi.

Fasteignaverð hækkar vísitöluna
"Eftir sem áður verður það húsnæðisliðurinn sem dregur vagninn hvað varðar hækkun vísitölunnar í júlí, en við spáum þó aðeins minni hækkun liðarins en raunin hefur verið síðustu mánuði," segir greiningardeildin.

Greiningardeildin segir eldsneytisverð á Íslandi hafi, það sem af er júní, hækkað um 1,5%, en heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað um tæp 3% í bandaríkjadölum á sama tímabili og hækkað um tæpt 1% ef mælt í íslenskum krónum. ?Það verður því matarliðurinn, eldsneytisliðurinn ásamt húsnæðisliðnum sem liggja að baki hækkun vísitölu neysluverðs í júlí."

Frekari hækkanir

Líkur eru á frekari hækkunum í þjónustuliðum vísitölunnar. ?Launavísitalan hækkaði um 0,9% í maí mánuði, (tólf mánaða hækkun 8,7%) og eru enn frekari hækkanir líklegar á næstunni enda er mikill þrýstingur á vinnuveitendur og stjórnvöld að hækka laun," segir greiningardeildin.

Það er nokkur óvissa í spánni, ?enda eru óvissuliðirnir margir. Við munum fylgjast með verðbreytingum og taka spánna til endurskoðunar í byrjun júlí, eða fyrr ef miklar breytingar verða á einstökum liðum," segir greiningardeildin.