*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Innlent 31. maí 2013 13:19

Landsbankinn svartsýnn á horfurnar

Hagfræðideild Landsbankans segir umfang neðanjarðarhagkerfisins kunna að bjaga mælingar á einkaneyslu.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Hagfræðideild Landsbankans spáir því að hagvöxtur verði 1,8% á þessu ári. Þetta er nokkuð svartsýnna hjá deildinni en í nóvemberspá hennar í fyrra var búist við allt að 2,4% hagvexti í ár. Hagvaxtarspá Hagstofunnar hljóðar til samanburðar upp á 1,9% hagvöxt á árinu og býst Seðlabankinn við 1,8% hagvexti.

Hagfræðideildin segir í Vegvísi sínum m.a. að undanfarin tvö ári hafi væntingar til hagvaxtar í helstu viðskiptalöndunum lækkað, ekki síst á evrusvæðinu. Þá byggir þjóðhagspáin aðallega á því að fjármunamyndun minnki frá í fyrra. Deildin lýsir áhyggjum af litlum fjárfestingum og minnkun fjárhagsstofns hagkerfisins sem muni skaða það til lengri tíma.

Meiri yfirdráttarheimildir auka einkaneyslu

Þá segir í Vegvísinum að gera megi ráð fyrir meiri hagvexti á næstu tveimur árum en í fyrri spá. M.a. er búist við minni vexti einkaneyslu (1,9%) á milli ára en áður var gert ráð fyrir (2,1%). Deildin bendir á vísbendingar um að aukin notkun yfirdráttarheimilda hafi stuðlað að meiri einkaneyslu en ella á síðasta ári og að stóraukið peningamagn í umferð gæti bent til að umfang neðanjarðarhagkerfis kunni að bjaga mælingar á einkaneyslu.  Á sama tíma eru jákvæð teikn í spánni um verðbólgu, sem er á niðurleið.

Hagfræðideildin gerir þannig ráð fyrir að verðbólgan verði undir 4% í ár og á næstu tveimur árum, sem er undir efri vikmörkum verðbólgumarkmiðs. Þá hefur deildin lækkað spá sína um atvinnuleysi á árinu, úr 5,2% meðalatvinnuleysi í 4,8%. Í þjóðhagsspánni er aukið mikilvægi ferðaþjónustunnar fyrir hagkerfið undirstrikað, bæði vegna stóraukins útflutnings á þjónustu, en einnig sem greinar sem líklegt er að fjárfesti mikið á næstu árum.

Þjóðhagsspá hagfræðideildar Landsbankans