Vegna breyttra aðstæðna í þjóðfélaginu vill Landsbankinn veita viðskiptavinum betra svigrúm til að greiða upp skuldir og hefur ákveðið að veita tímabundið afslátt af uppgreiðslugjaldi vegna íbúðalána bankans og innborgunar á höfuðstól.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Landsbankanum.

Þar kemur fram að veittur er 50% afsláttur af uppgreiðslugjaldinu á lánum sem eru með fasta vexti út lánstímann, og verður það nú 1% í stað 2% áður.

Þá er veittur er 100% afsláttur af uppgreiðslugjaldinu á lánum sem eru með endurskoðun vaxta á 5 ára fresti  sé lánið greitt upp utan þess tímabils er vaxtaendurskoðun á sér stað.

Í tilkynningunni kemur fram að afslátturinn tekur mið af þeirri vaxtaáhættu sem lánin bera.

„Minni afsláttur er veittur á lánum með föstum vöxtum út lánstímann vegna þess að bankinn býr við meiri vaxtaáhættu til lengri tíma. Öðru máli gegnir með lán með vaxtaendurskoðun á fimm ára fresti, þau lán hafa fram að þessu verið með heimild til uppgreiðslu án kostnaðar þegar vaxtaendurskoðun á sér stað á fimm ára fresti,“ segir í tilkynningunni.