Árið 2003 höfðu bæði Búnaðarbankinn og Landsbankinn sýnt því áhuga að sameinast Kaupþingi, en engar formlegar viðræður áttu sér stað, að því er Sigurður Einarsson, fyrrverandi forstjóri og stjórnarformaður Kaupþings, segir.

„Einkavæða átti bankana tvo og við, sem og stjórnendur bankanna, vildum bíða með það þar til sýnt væri hverjir endanlegir eigendur þeirra yrðu. við tókum ekki þátt í einkavæðingunni, þótt margir virðast haldnir þeirri villu að Kaupþing hafi stýrt einkavæðingunni að einhverju leyti, en það er vitleysa. Við höfðum alveg áhuga á því, en töldum nokkuð víst að það yrði ekki vinsælt í pólitíkinni.

Eftir einkavæðinguna lögðust Kaupþingsmenn undir feld til að meta hvort heppilegast væri að sameinast Búnaðarbanka, Landsbanka eða gera einfaldlega ekki neitt. „Það var raunverulegur möguleiki að sameinast Landsbankanum.

Björgólfur Thor kom að máli við okkur um sameiningu, en okkur varð strax ljóst að hann ætlaði sér að koma með virkum hætti að daglegum rekstri bankans eftir hugsanlega sameiningu. Það hugnaðist okkur illa, því við vorum orðnir vanir því að hluthafar gerðu það ekki. Við ræddum því við þá sem keyptu Búnaðarbankann og varð ljóst að þeir vildu sameiningu en ætluðu ekki að koma að daglegum rekstri bankans. Það féll mjög vel að okkar hugmyndafræði.“

Ítarlegt viðtal við Sigurð er í tímaritinu Áramót, sem kom út í morgun, 30. desember.