Landsbankinn hefur komið þeim skilaboðum til slitastjórnar gamla Landsbankans að hann sé tilbúinn til að fyrirframgreiða tugi milljarða króna inn á um 300 milljarða skuldabréf á milli nýja bankans og þess gamla, að því er fram kemur í Morgunblaðinu. Þar segir að fyrirframgreiðslan þurfi að haldast í hendur hendur við það hvort Seðlabankinn heimili slitastjórn gamla bankans að greiða fjárhæðina út til forgangskröfuhafa. Blaðið segir jafnframt ólíklegt að Seðlabankinn veiti leyfi sitt fyrir því á meðan ekki hafi tekist að semja um endurfjármögnun eða lengingu á skuldabréfum Landsbankans.

Áætlaðar afborganir af láni Landsbankans nema að óbreyttu yfir 290 milljörðum króna á árunum 2014 til 2018. Morgunblaðið segir ekki að koma á óvart að Landsbankinn hafi áhuga á því að minnka erlendar skuldbindingar sínar og greiða inn á skuldabréfið. Lausafjáreign bankans í erlendri mynt nam um 120 milljörðum króna undir lok fyrsta ársfjórðungs og beri þær mjög litla ávöxtun. Á sama tíma aukist vaxtagreiðslur af erlendum skuldum en núverandi skilmálar skuldabréfanna gera ráð fyrir því að álagið ofan á Libor-vexti hækki í október á þessu ári úr 1,75% í 2,9%. Með því að lækka höfuðstól erlendra skulda geti Landsbankinn að óbreyttu sparað sér talsverðar fjárhæðir í vaxtakostnað

Morgunblaðið segir jafnframt að fulltrúar á vegum breskra og hollenskra stjórnvalda hafi átt marga fundi með íslenskum ráðamönnum og forsvarsmönnum Landsbankans um málið að undanförnu. Fundirnir hafi hins vegar lítinn árangur borið.