Hagnaður Landsbréfa nam 10 milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Sjóðurinn er í eigu Landsbankans og keypti hann sjóðinn Landsvaka í mars síðastliðnum fyrir 530 milljónir króna.

Fram kemur í uppgjöri sjóðsins að heildarstærð sjóða í rekstri Landsbréfa hafi í lok júní numið 59,4 milljörðum króna. Eigið fé hafi á sama tíma numið 689 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall félagsins er 95,7%. Það má ekki vera lægra en 8% samkvæmt lögum.

Fram kemur í tilkynningu frá Landsbréfum að óvissa í efnahagsmálum heimsins sé ennþá mikil og hafi í raun farið vaxandi eftir því sem liðið hafi á árið.  Það hafi haft áhrif á sjóði sem eigi erlendar eignir og eftir nokkuð miklar hækkanir á erlendum hlutabréfamörkuðum framan af ári hafa markaðir gefið eftir. Nú sé svo komið að þær hækkanir séu að miklu leyti gengnar til baka.

Þá segir um aðstæður hér:

„Skuldabréfa- og hlutabréfamarkaðir á Íslandi eru enn nokkuð veikburða en sýna þó batamerki.  Eitt nýtt félag var skráð á hlutabréfamarkað á fyrri árshelmingi og nokkur félög stefna að skráningu á næstu misserum.  Markaður fyrir skuldabréf fyrirtækja er enn óvirkur en bankastofnanir hafa gefið út sértryggð skuldabréf með ágætum árangri.  Skuldabréfaútgáfa sveitarfélaga virðist vera að ná sér á strik og hefur Lánasjóður sveitarfélaga náð að fjármagna sig að því marki sem hann hefur þurft á ágætum kjörum.  Markaður fyrir skuldabréf með ábyrgð ríkisins er enn sem komið er langvirkasti markaðurinn fyrir verðbréf og hefur ávöxtunarkrafa á þeim haldist lág og ekki er fyrirséð að það breytist í náinni framtíð sérstaklega ekki þegar litið er til þess að verðbólga virðist vera á niðurleið,“