Landsbréf, dótturfélag Landsbankans, mun síðar í þessum mánuði stofna svokallaðan kauphallarsjóð. Sjóðurinn mun endurspegla OMXI6 cap-vísitöluna sem Kauphöllin reiknar og birtir. Sjóður af þessu tagi hefur ekki verið í boði á innlendum verðbréfamarkaði.

Í aðsendri grein í Viðskiptablaðinu í dag greina Sigþór Jónsson, framkvæmdastjóri Landsbréfa, og sjóðstjórarnir Ingvar Karlsson og Ólafur Jóhannsson frá stofnun sjóðsins. Fyrr í sumar tilkynnti Kauphöllin að sex nýjar vísitölur verði teknar upp og segja þremenningarnir að ákvörðunin skapi grundvöll fyrir starfsrækslu íslenskra kauphallarsjóða, sem hafa notið vinsælda erlendis. Viðskiptavakt verður með hlutdeildarskírteinin í Landsbréfum LEQ, nýja kauphallarsjóðnum.