Líklegt má telja að brúnin hafi lyftst á landsmönnum í mánuðinum eftir að EFTA-dómstóllinn sýknaði Ísland í Icesave-málinu undir lok janúar.

Greining Íslandsbanka bendir á það í Morgunkorni sínu í dag að Capacent Gallup birti væntingavísitölu sína fyrir febrúarmánuð á morgun. Í síðasta mánuði hækkaði vísitalan um 12,3 stig frá fyrri mánuði og fór hún við það úr 69,4 stigum í 81,7 stig.

Greiningardeildin rifjar upp að vísitalan hafi oftast hækkað á milli desember og janúar í gegnum tíðina en í fyrra fór hún úr 67,5 stigum í 75,0 stig.

„Miðað við gildi vísitölunnar í janúar í fyrra er ljóst að brún neytenda mælist heldur léttari í upphafi þessa árs en í fyrra,“ segir í Morgunkorninu en því hnýtt við að mæling vísitölunnar í síðasta mánuði hafi farið fram áður en Icesave-dómurinn var kveðinn upp og megi því vænta að áhrifa hans muni gæta í mælingunni nú.