Hagnaður Rarik nam 424 milljónum króna á fyrri hluta ársins sem er ríflega þriðjungur af hagnaði þess á sama tímabili fyrir ári. Þetta er minnsti hagnaður á fyrir hluta árs allt frá árinu 2014. Rekstrarhagnaður (EBIT) þess var ríflega milljarður króna en 1,6 milljarður árið áður. Opinbera hlutafélagið birti árshlutauppgjör rétt í þessu.

Raforkusala skýrir að mestu breyttar tekjur en hún dróst saman um 5,6% eða 154 milljónir króna. Rekstrargjöld jukust um 5,7% eða 382 milljónir, að mestu leiti vegna reksturs veitukerfa. Tæplega 58% af tekjum félagsins kemur til vegna raforkudreifingu og 32% vegna raforkusölu.

Fjárfestingar ársins eru áætlaðar um 7,4 milljarðar, sem er talsvert meira en undanfarin ár. Rarik keypti allt rafveitukerfi Rafveitu Reyðarfjarðar fyrir 440 milljónir í upphafi árs.

Áhrif hlutdeildarfélagsins Landsnets voru jákvæð um 404 milljónir króna, samanborið við 538 milljónir króna á fyrri hluta síðasta árs. Fjárhagsleg áhrif Kórónaveirunnar á rekstur RARIK eru ekki veruleg eins og stendur.

Heildareignir Rarik hafa aukist um ríflega milljarð króna á árinu og námu 69,5 milljörðum í lok annars ársfjórðungs, þar af námu rekstrarfjármunir 52 milljörðum. Skuldir nam alls 24 milljörðum og langtímaskuldir þar af 19,5 milljarðar. Eigið fé var 56 milljarðar og eiginfjárhlutfall 66%.

Handbært fé frá rekstri var jákvætt um 1,4 milljarða króna en bæði fjárfestingahreyfingar og fjármögnunarhreyfingar neikvæðar, sökum fjárfestinga og afborgana af lánum. Lækkun var á handbæru fé um 52 milljónir en ekki var greiddur út arður.